Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
1. sunnudagur í lönguföstu, ár B
Fyrsti ritningarlestur:
Fyrsta bók MóseOg Guð mælti þannig við Nóa og sonu hans, sem voru með honum: "Sjá, ég gjöri minn sáttmála við yður og við niðja yðar eftir yður og við allar lifandi skepnur, sem með yður eru, bæði við fuglana og fénaðinn og öll villidýrin, sem hjá yður eru, allt, sem út gekk úr örkinni, það er öll dýr jarðarinnar. Minn sáttmála vil ég gjöra við yður: Aldrei framar skal allt hold tortímast af vatnsflóði, og aldrei framar mun flóð koma til að eyða jörðina. Og Guð sagði: Þetta er merki sáttmálans, sem ég gjöri milli mín og yðar og allra lifandi skepna, sem hjá yður eru, um allar ókomnar aldir: Boga minn set ég í skýin, að hann sé merki sáttmálans milli mín og jarðarinnar. Og þegar ég dreg ský saman yfir jörðinni og boginn sést í skýjunum, þá mun ég minnast sáttmála míns, sem er milli mín og yðar og allra lifandi sálna í öllu holdi, og aldrei framar skal vatnið verða að flóði til að tortíma öllu holdi.
Sálmur:
Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína. Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig. Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð. Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn. Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn. Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.
Síðari ritningarlestur:
Fyrra almenna bréf PétursKristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda. Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, þegar Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar - það er átta - sálir í vatni. Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists, sem uppstiginn til himna, situr Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.
Guðspjall:
MarkúsarguðspjallÞá knúði andinn hann út í óbyggðina, og hann var í óbyggðinni fjörutíu daga, og Satan freistaði hans. Hann hafðist við meðal villidýra, og englar þjónuðu honum. Þegar Jóhannes hafði verið tekinn höndum, kom Jesús til Galíleu og prédikaði fagnaðarerindi Guðs og sagði: Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu.