Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
1. sunnudagur lönguföstu, ár A
Fyrsti ritningarlestur:
Fyrsta bók MóseÞá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál. Drottinn Guð plantaði aldingarð í Eden langt austur frá og setti þar manninn, sem hann hafði myndað. Og Drottinn Guð lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af, og lífsins tré í miðjum aldingarðinum og skilningstréð góðs og ills. Höggormurinn var slægari en öll önnur dýr merkurinnar, sem Drottinn Guð hafði gjört. Og hann mælti við konuna: "Er það satt, að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?" Þá sagði konan við höggorminn: "Af ávöxtum trjánna í aldingarðinum megum við eta, en af ávexti trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, af honum, sagði Guð, megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja." Þá sagði höggormurinn við konuna: "Vissulega munuð þið ekki deyja! En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills." En er konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks, þá tók hún af ávexti þess og át, og hún gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. Þá lukust upp augu þeirra beggja, og þau urðu þess vör, að þau voru nakin, og þau festu saman fíkjuviðarblöð og gjörðu sér mittisskýlur.
Sálmur:
Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi. Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni, því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum. Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir. Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda. Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér. Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!
Síðari ritningarlestur:
Bréf Páls til RómverjaSyndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað. Því að allt fram að lögmálinu var synd í heiminum, en synd tilreiknast ekki meðan ekki er lögmál. Samt sem áður hefur dauðinn ríkt frá Adam til Móse einnig yfir þeim, sem ekki höfðu syndgað á sömu lund og Adam braut, en Adam vísar til hans sem koma átti. En náðargjöfinni og misgjörðinni verður ekki jafnað saman. Því að hafi hinir mörgu dáið sakir þess að einn féll, því fremur hefur náð Guðs og gjöf streymt ríkulega til hinna mörgu í hinum eina manni Jesú Kristi, sem er náðargjöf Guðs. Og ekki verður gjöfinni jafnað til þess, sem leiddi af synd hins eina manns. Því að dómurinn vegna þess, sem hinn eini hafði gjört, varð til sakfellingar, en náðargjöfin vegna misgjörða margra til sýknunar. Ef misgjörð hins eina manns hafði í för með sér, að dauðinn tók völd með þeim eina manni, því fremur munu þá þeir, sem þiggja gnóttir náðarinnar og gjafar réttlætisins, lifa og ríkja vegna hins eina Jesú Krists. Eins og af misgjörð eins leiddi sakfellingu fyrir alla menn, þannig leiðir og af réttlætisverki eins sýknun og líf fyrir alla menn. Eins og hinir mörgu urðu að syndurum fyrir óhlýðni hins eina manns, þannig mun hlýðni hins eina réttlæta hina mörgu.
Guðspjall:
MatteusarguðspjallÞá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina, að hans yrði freistað af djöflinum. Þar fastaði hann fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður. Þá kom freistarinn og sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú, að steinar þessir verði að brauðum." Jesús svaraði: "Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni." Þá tekur djöfullinn hann með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins og segir við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér ofan, því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum, og þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini." Jesús svaraði honum: "Aftur er ritað: Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns." Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: "Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig." En Jesús sagði við hann: "Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum." Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum.