Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
19. sunnudagur, ár A
Fyrsti ritningarlestur:
Fyrri bók konungannaÞar gekk hann inn í helli og hafðist þar við um nóttina. Þá kom orð Drottins til hans: "Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?" Þá sagði Drottinn: "Gakk þú út og nem staðar á fjallinu frammi fyrir mér." Og sjá, Drottinn gekk fram hjá, og mikill og sterkur stormur, er tætti fjöllin og molaði klettana, fór fyrir Drottni, en Drottinn var ekki í storminum. Og eftir storminn kom landskjálfti, en Drottinn var ekki í landskjálftanum. Og eftir landskjálftann kom eldur, en Drottinn var ekki í eldinum. En eftir eldinn heyrðist blíður vindblær hvísla. Og er Elía heyrði það, huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og nam staðar við hellisdyrnar. Sjá, þá barst rödd að eyrum honum og mælti: "Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?"
Sálmur:
Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans. Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru. Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast. Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni. Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar. Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.
Síðari ritningarlestur:
Bréf Páls til RómverjaÉg tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki. Samviska mín vitnar það með mér, upplýst af heilögum anda, að ég hef hryggð mikla og sífellda kvöl í hjarta mínu. Ég gæti óskað, að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi, ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn, sraelsmenn. Þeir fengu sonarréttinn, dýrðina, sáttmálana, löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin. Þeim tilheyra og feðurnir, og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður um aldir. Amen.
Guðspjall:
MatteusarguðspjallTafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um, meðan hann sendi fólkið brott. Og er hann hafði látið fólkið fara, gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið, var hann þar einn. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum, því að vindur var á móti. En er langt var liðið nætur kom hann til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu, varð þeim bilt við. Þeir sögðu: "Þetta er vofa," og æptu af hræðslu. En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: "Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir." Pétur svaraði honum: "Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu." Jesús svaraði: "Kom þú!" Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En sem hann sá rokið, varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: "Herra, bjarga þú mér!" Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: "Þú trúlitli, hví efaðist þú?" Þeir stigu í bátinn, og þá lægði vindinn. En þeir sem í bátnum voru, tilbáðu hann og sögðu: "Sannarlega ert þú sonur Guðs."