Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
18. sunnudagur, ár A


Fyrsti ritningarlestur:

Jesaja

Heyrið, allir þér sem þyrstir eruð, komið hingað til vatnsins, og þér sem ekkert silfur eigið, komið, kaupið korn og etið! Komið, kaupið korn án silfurs og endurgjaldslaust bæði vín og mjólk! Hví reiðið þér silfur fyrir það, sem ekki er brauð, og gróða yðar fyrir það, sem ekki er til saðnings? Hlýðið á mig, þá skuluð þér fá gott að eta og sálir yðar gæða sér á feiti! Hneigið eyru yðar og komið til mín, heyrið, svo að sálir yðar megi lifna við! Ég vil gjöra við yður eilífan sáttmála, Davíðs órjúfanlega náðarsáttmála.


Sálmur:

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar. Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun. Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum. Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Rómverja

Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? Nei, í öllu þessu vinnum vér fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss. Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Þegar Jesús heyrði þetta, fór hann þaðan á báti á óbyggðan stað og vildi vera einn. En fólkið frétti það og fór gangandi á eftir honum úr borgunum. Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá og læknaði þá af þeim, er sjúkir voru. Um kvöldið komu lærisveinarnir að máli við hann og sögðu: "Hér er engin mannabyggð og dagur liðinn. Lát nú fólkið fara, að þeir geti náð til þorpanna og keypt sér vistir." Jesús svaraði þeim: "Ekki þurfa þeir að fara, gefið þeim sjálfir að eta." Þeir svara honum: "Vér höfum hér ekki nema fimm brauð og tvo fiska." Hann segir: "Færið mér það hingað." Og hann bauð fólkinu að setjast í grasið. Þá tók hann brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum, en þeir fólkinu. Og þeir neyttu allir og urðu mettir. Og þeir tóku saman brauðbitana, er af gengu, tólf körfur fullar. En þeir, sem neytt höfðu, voru um fimm þúsund karlmenn, auk kvenna og barna.