Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
17. sunnudagur, ár A
Fyrsti ritningarlestur:
Fyrri bók konungannaÍ Gíbeon vitraðist Drottinn Salómon í draumi um nótt, og Guð sagði: "Bið mig þess, er þú vilt að ég veiti þér." Nú hefir þú þá, Drottinn Guð minn, gjört þjón þinn að konungi í stað Davíðs föður míns. En ég er unglingur og kann ekki fótum mínum forráð. Og þjónn þinn er mitt á meðal þjóðar þinnar, er þú hefir útvalið, mikillar þjóðar, er eigi má telja eða tölu á koma fyrir fjölda sakir. Gef því þjóni þínum gaumgæfið hjarta til að stjórna þjóð þinni og til að greina gott frá illu. Því að hver gæti annars stjórnað þessari fjölmennu þjóð þinni?" Drottni líkaði vel, að Salómon bað um þetta. Þá sagði Guð við hann: "Af því að þú baðst um þetta, en baðst ekki um langlífi þér til handa eða auðlegð eða líf óvina þinna, heldur baðst um vitsmuni til að skynja, hvað rétt er í málum manna, þá vil ég veita þér bæn þína. Ég gef þér hyggið og skynugt hjarta, svo að þinn líki hefir ekki verið á undan þér og mun ekki koma eftir þig.
Sálmur:
Drottinn er hlutskipti mitt, ég hefi ákveðið að varðveita orð þín. Lögmálið af munni þínum er mér mætara en þúsundir af gulli og silfri. Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum. Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín. Þess vegna elska ég boð þín framar en gull og skíragull. Þess vegna held ég beina leið eftir öllum fyrirmælum þínum, ég hata sérhvern lygaveg. Reglur þínar eru dásamlegar, þess vegna heldur sál mín þær. Útskýring orðs þíns upplýsir, gjörir fávísa vitra.
Síðari ritningarlestur:
Bréf Páls til RómverjaVér vitum, að þeim, sem Guð elska, samverkar allt til góðs, þeim sem kallaðir eru samkvæmt ákvörðun Guðs. Því að þá, sem hann þekkti fyrirfram, hefur hann og fyrirhugað til þess að líkjast mynd sonar síns, svo að hann sé frumburður meðal margra bræðra. Þá sem hann fyrirhugaði, þá hefur hann og kallað, og þá sem hann kallaði, hefur hann og réttlætt, en þá sem hann réttlætti, hefur hann einnig vegsamlega gjört.
Guðspjall:
MatteusarguðspjallLíkt er himnaríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann. Enn er himnaríki líkt kaupmanni, sem leitaði að fögrum perlum. Og er hann fann eina dýrmæta perlu, fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana. Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt. Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. Hafið þér skilið allt þetta?" "Já," svöruðu þeir. Hann sagði við þá: "Þannig er sérhver fræðimaður, sem orðinn er lærisveinn himnaríkis, líkur húsföður, sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu."