Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
16. sunnudagur, ár C


Fyrsti ritningarlestur:

Fyrsta bók Móse

Drottinn birtist Abraham í Mamrelundi, er hann sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum. Og hann hóf upp augu sín og litaðist um, og sjá, þrír menn stóðu gagnvart honum. Og er hann sá þá, skundaði hann til móts við þá úr tjalddyrum sínum og laut þeim til jarðar og mælti: “Herra minn, hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gakk eigi fram hjá þjóni þínum. Leyfið, að sótt sé lítið eitt af vatni, að þér megið þvo fætur yðar, og hvílið yður undir trénu. Og ég ætla að sækja brauðbita, að þér megið styrkja hjörtu yðar, - síðan getið þér haldið áfram ferðinni, - úr því að þér fóruð hér um hjá þjóni yðar.” Og þeir svöruðu: “Gjörðu eins og þú hefir sagt.” Þá flýtti Abraham sér inn í tjaldið til Söru og mælti: “Sæktu nú sem skjótast þrjá mæla hveitimjöls, hnoðaðu það og bakaðu kökur.” Og Abraham skundaði til nautanna og tók kálf, ungan og vænan, og fékk sveini sínum, og hann flýtti sér að matbúa hann. Og hann tók áfir og mjólk og kálfinn, sem hann hafði matbúið, og setti fyrir þá, en sjálfur stóð hann frammi fyrir þeim undir trénu, meðan þeir mötuðust. Þá sögðu þeir við hann: “Hvar er Sara kona þín?” Hann svaraði: “Þarna inni í tjaldinu.” Og Drottinn sagði: “Vissulega mun ég aftur koma til þín að ári liðnu í sama mund, og mun þá Sara kona þín hafa eignast son.” En Sara heyrði þetta í dyrum tjaldsins, sem var að baki hans.


Sálmur:

Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta, sá er eigi talar róg með tungu sinni, eigi gjörir öðrum mein og eigi leggur náunga sínum svívirðing til; sem fyrirlítur þá er illa breyta, en heiðrar þá er óttast Drottin, sá er sver sér í mein og bregður eigi af, sá er eigi lánar fé sitt með okri og eigi þiggur mútur gegn saklausum - sá er þetta gjörir, mun eigi haggast um aldur.


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Kólossumanna

Nú er ég glaður í þjáningum mínum yðar vegna. Það, sem enn vantar á þjáningar Krists, uppfylli ég með líkamlegum þjáningum mínum til heilla fyrir líkama hans, sem er kirkjan. En hans þjónn er ég orðinn samkvæmt því hlutverki, sem Guð hefur mér á hendur falið yðar vegna: Að flytja Guðs orð óskorað, leyndardóminn, sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða, en nú hefur hann verið opinberaður Guðs heilögu. Guð vildi kunngjöra þeim, hvílíkan dýrðar ríkdóm heiðnu þjóðirnar eiga í þessum leyndardómi, sem er Kristur meðal yðar, von dýrðarinnar. Hann boðum vér, er vér áminnum sérhvern mann og fræðum með allri speki, til þess að vér getum leitt hvern mann fram fullkominn í Kristi.


Guðspjall:

Lúkasarguðspjall

Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: “Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.” En Drottinn svaraði henni: “Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.”