Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
15. sunnudagur, ár C
Fyrsti ritningarlestur:
Fimmta bók Móseef þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns og varðveitir skipanir hans og lög, sem rituð eru í þessari lögmálsbók, ef þú snýr þér til Drottins Guðs þíns af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni. Þetta boðorð, sem ég legg fyrir þig í dag, er þér eigi um megn, og það er eigi fjarlægt þér. Ekki er það uppi í himninum, svo að þú þurfir að segja: Hver ætli fari fyrir oss upp í himininn og sæki það handa oss og kunngjöri oss það, svo að vér megum breyta eftir því? Og það er eigi hinumegin hafsins, svo að þú þurfir að segja: Hver ætli fari fyrir oss yfir hafið og sæki það handa oss og kunngjöri oss það, svo að vér megum breyta eftir því? Heldur er orðið harla nærri þér, í munni þínum og hjarta þínu, svo að þú getur breytt eftir því.
Sálmur:
En ég bið til þín, Drottinn, á stund náðar þinnar. Svara mér, Guð, í trúfesti hjálpræðis þíns sakir mikillar miskunnar þinnar. Bænheyr mig, Drottinn, sakir gæsku náðar þinnar, snú þér að mér eftir mikilleik miskunnar þinnar. En ég er volaður og þjáður, hjálp þín, ó Guð, mun bjarga mér. Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það í lofsöng. Hinir auðmjúku sjá það og gleðjast, þér sem leitið Guðs - hjörtu yðar lifni við. Því að Drottinn hlustar á hina fátæku og fyrirlítur eigi bandingja sína. Því að Guð veitir Síon hjálp og reisir við borgirnar í Júda, og menn skulu búa þar og fá landið til eignar. Niðjar þjóna hans munu erfa það, og þeir er elska nafn hans, byggja þar.
Síðari ritningarlestur:
Bréf Páls til KólossumannaHann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar. Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans. Hann er fyrri en allt, og allt á tilveru sína í honum. Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu. Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu. Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.
Guðspjall:
LúkasarguðspjallLögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf? Jesús sagði við hann: Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú? Hann svaraði: Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig. Jesús sagði við hann: Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa. En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: Hver er þá náungi minn? Því svaraði Jesús svo: Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur. Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum? Hann mælti: Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum. Jesús sagði þá við hann: Far þú og gjör hið sama.