Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
14. sunnudagur, ár B
Fyrsti ritningarlestur:
EsekíelÞá kom andi í mig, er hann talaði þannig til mín, sem reisti mig á fætur, og ég heyrði til þess, er við mig talaði. Og hann sagði við mig: Þú mannsson, ég ætla að senda þig til Ísraelsmanna, til hinna fráhorfnu, þeirra er mér hafa gjörst fráhverfir. Þeir og feður þeirra hafa rofið trúna við mig allt fram á þennan dag. Ég sendi þig til þeirra, sem eru þrjóskir á svip og harðir í hjarta, og þú skalt segja við þá: Svo segir Drottinn Guð! Og hvort sem þeir hlýða á það eða gefa því engan gaum því að þeir eru þverúðug kynslóð þá skulu þeir vita, að spámaður er á meðal þeirra.
Sálmur:
Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum. Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss. Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti. Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.
Síðari ritningarlestur:
Síðara bréf Páls til KorintumannaOg til þess að ég skuli ekki hrokast upp af hinum miklu opinberunum, er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig, til þess að ég skuli ekki hrokast upp. Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér. Og hann hefur svarað mér: Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika. Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér. Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.
Guðspjall:
MarkúsarguðspjallÞaðan fór Jesús og kom í ættborg sína, og lærisveinar hans fylgdu honum. Þegar hvíldardagur var kominn, tók hann að kenna í samkundunni, og þeir mörgu, sem á hlýddu, undruðust stórum. Þeir sögðu: Hvaðan kemur honum þetta? Hver er sú speki, sem honum er gefin, og þau kraftaverk, sem gjörast fyrir hendur hans? Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu, bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar? Og eru ekki systur hans hér hjá oss? Og þeir hneyksluðust á honum. Þá sagði Jesús: Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu, með frændum og heimamönnum. Og hann gat ekki gjört þar neitt kraftaverk, nema hann lagði hendur yfir nokkra sjúka og læknaði þá. Og hann undraðist vantrú þeirra. Hann fór nú um þorpin þar í kring og kenndi.