Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
14. sunnudagur, ár A
Fyrsti ritningarlestur:
SakaríaFagna þú mjög, dóttirin Síon, lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem! Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola. Hann útrýmir hervögnum úr Efraím og víghestum úr Jerúsalem. Öllum herbogum mun og útrýmt verða, og hann mun veita þjóðunum frið með úrskurðum sínum. Veldi hans mun ná frá hafi til hafs og frá Fljótinu til endimarka jarðarinnar.
Sálmur:
Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi. Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi. Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar. Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig. Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu. Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum. Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.
Síðari ritningarlestur:
Bréf Páls til RómverjaEn þér eruð ekki holdsins menn, heldur andans menn, þar sem andi Guðs býr í yður. En hafi einhver ekki anda Krists, þá er sá ekki hans. Ef andi hans, sem vakti Jesú frá dauðum, býr í yður, þá mun hann, sem vakti Krist frá dauðum, einnig gjöra dauðlega líkami yðar lifandi með anda sínum, sem í yður býr. Þannig erum vér, bræður, í skuld, ekki við holdið að lifa að hætti holdsins. Því að ef þér lifið að hætti holdsins, munuð þér deyja, en ef þér deyðið með andanum gjörðir líkamans, munuð þér lifa.
Guðspjall:
MatteusarguðspjallÁ þeim tíma tók Jesús svo til orða: "Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt. Allt er mér falið af föður mínum, og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann. Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt."