Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
13. sunnudagur ár B, Hátíð Péturs og Páls.


Fyrsti ritningarlestur:

Postulasagan

Um þessar mundir lét Heródes konungur leggja hendur á nokkra úr söfnuðinum og misþyrma þeim. Hann lét höggva Jakob bróður Jóhannesar með sverði. Og er hann sá, að Gyðingum líkaði vel, lét hann einnig taka Pétur. Þá voru dagar ósýrðu brauðanna. Þegar hann hafði handtekið hann, lét hann setja hann í fangelsi og fól fjórum fjögurra hermanna varðflokkum að gæta hans. Ætlaði hann eftir páska að leiða hann fram fyrir lýðinn. Sat nú Pétur í fangelsinu, en söfnuðurinn bað heitt til Guðs fyrir honum. Nóttina áður en Heródes ætlaði að leiða hann fram svaf Pétur milli tveggja hermanna, bundinn tveim fjötrum, og varðmenn fyrir dyrum úti gættu fangelsisins. Allt í einu stóð engill Drottins hjá honum og ljós skein í klefanum. Laust hann á síðu Pétri, vakti hann og mælti: “Rís upp skjótt!” Og fjötrarnir féllu af höndum hans. Þá sagði engillinn við hann: “Gyrð þig og bind á þig skóna!” Hann gjörði svo. Síðan segir engillinn: “Far þú í yfirhöfn þína og fylg mér!” Hann gekk út og fylgdi honum. En ekki vissi hann, að það var raunverulegt, sem gjörst hafði við komu engilsins, hann hélt sig sjá sýn. Þeir gengu nú fram hjá innri og ytri verðinum og komu að járnhliðinu, sem farið er um til borgarinnar. Laukst það upp af sjálfu sér fyrir þeim. Þeir fóru út um það og gengu eitt stræti, en þá hvarf engillinn allt í einu frá honum. Þegar Pétur kom til sjálfs sín, sagði hann: “Nú veit ég sannlega, að Drottinn hefur sent engil sinn og bjargað mér úr hendi Heródesar og frá allri ætlan Gyðingalýðs.”


Sálmur:

Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni. Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna. Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans. Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist. Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast. Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans. Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá. Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.


Síðari ritningarlestur:

Síðara bréf Páls til Tímóteusar

Nú er svo komið, að mér verður fórnfært, og tíminn er kominn, að ég taki mig upp. Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér, heldur og öllum, sem þráð hafa endurkomu hans. En Drottinn stóð með mér og veitti mér kraft, til þess að ég yrði til að fullna prédikunina og allar þjóðir fengju að heyra. Og ég varð frelsaður úr gini ljónsins. Drottinn mun frelsa mig frá öllu illu og mig hólpinn leiða inn í sitt himneska ríki. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína: “Hvern segja menn Mannssoninn vera?” Þeir svöruðu: “Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.” Hann spyr: “En þér, hvern segið þér mig vera?” Símon Pétur svarar: “Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.” Þá segir Jesús við hann: “Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum.”