Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
12. sunnudagur, ár C


Fyrsti ritningarlestur:

Sakaría

En yfir Davíðs hús og yfir Jerúsalembúa úthelli ég líknar- og bænaranda, og þeir munu líta til mín, til hans, sem þeir lögðu í gegn, og harma hann eins og menn harma lát einkasonar, og syrgja hann eins og menn syrgja frumgetinn son. Á þeim degi mun eins mikið harmakvein verða í Jerúsalem eins og Hadad-Rimmon-harmakveinið í Megiddódal. Á þeim degi mun Davíðs húsi og Jerúsalembúum standa opin lind til að þvo af sér syndir og saurugleik.


Sálmur:

Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi. Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð, því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig. Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni. Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn, Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég. Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Galatamanna

Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú. Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi. Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú. En ef þér tilheyrið Kristi, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.


Guðspjall:

Lúkasarguðspjall

Svo bar við, að hann var einn á bæn og lærisveinarnir hjá honum. Þá spurði hann þá: “Hvern segir fólkið mig vera?” Þeir svöruðu: “Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir, að einn hinna fornu spámanna sé risinn upp.” Og hann sagði við þá: “En þér, hvern segið þér mig vera?” Pétur svaraði: “Krist Guðs.” Hann lagði ríkt á við þá að segja þetta engum og mælti: “Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa á þriðja degi.” Og hann sagði við alla: “Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því.”