Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
12. sunnudagur, ár A


Fyrsti ritningarlestur:

Jeremía

Já, ég hefi heyrt illyrði margra _ skelfing allt um kring: "Kærið hann!" og "Vér skulum kæra hann!" Jafnvel allir þeir, sem ég hefi verið í vináttu við, vaka yfir því, að ég hrasi: "Ef til vill lætur hann ginnast, svo að vér fáum yfirstigið hann og hefnt vor á honum." En Drottinn er með mér eins og voldug hetja. Fyrir því munu ofsóknarmenn mínir steypast og engu áorka. Þeir skulu verða herfilega til skammar, af því að þeir hafa ekki farið viturlega að ráði sínu _ til eilífrar, ógleymanlegrar smánar. Drottinn allsherjar, þú sem prófar hinn réttláta, þú sem sér nýrun og hjartað, lát mig sjá hefnd þína á þeim, því að þér fel ég málefni mitt. Lofsyngið Drottni! Vegsamið Drottin, því að hann frelsar líf hins fátæka undan valdi illgjörðamanna.


Sálmur:

Þín vegna ber ég háðung, þín vegna hylur svívirðing auglit mitt. Ég er ókunnur orðinn bræðrum mínum og óþekktur sonum móður minnar. Vandlæting vegna húss þíns hefir uppetið mig, og smánanir þeirra er smána þig, hafa lent á mér. En ég bið til þín, Drottinn, á stund náðar þinnar. Svara mér, Guð, í trúfesti hjálpræðis þíns sakir mikillar miskunnar þinnar. Bænheyr mig, Drottinn, sakir gæsku náðar þinnar, snú þér að mér eftir mikilleik miskunnar þinnar. Hinir auðmjúku sjá það og gleðjast, þér sem leitið Guðs _ hjörtu yðar lifni við. Því að Drottinn hlustar á hina fátæku og fyrirlítur eigi bandingja sína. Hann skulu lofa himinn og jörð, höfin og allt sem í þeim hrærist.


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Rómverja

Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað. Því að allt fram að lögmálinu var synd í heiminum, en synd tilreiknast ekki meðan ekki er lögmál. Samt sem áður hefur dauðinn ríkt frá Adam til Móse einnig yfir þeim, sem ekki höfðu syndgað á sömu lund og Adam braut, en Adam vísar til hans sem koma átti. En náðargjöfinni og misgjörðinni verður ekki jafnað saman. Því að hafi hinir mörgu dáið sakir þess að einn féll, því fremur hefur náð Guðs og gjöf streymt ríkulega til hinna mörgu í hinum eina manni Jesú Kristi, sem er náðargjöf Guðs.


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Óttist þá því eigi. Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt. Það sem ég segi yður í myrkri, skuluð þér tala í birtu, og það sem þér heyrið hvíslað í eyra, skuluð þér kunngjöra á þökum uppi. Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti. Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar. Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar. Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum. En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum.