Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
11. sunnudagur, ár A
Fyrsti ritningarlestur:
Önnur bók MóseÞeir tóku sig upp frá Refídím og komu í Sínaí-eyðimörk og settu búðir sínar í eyðimörkinni. Og Ísrael setti búðir sínar þar gegnt fjallinu. Gekk Móse þá upp til Guðs, og kallaði Drottinn til hans af fjallinu og sagði: "Svo skalt þú segja Jakobs niðjum og kunngjöra Ísraelsmönnum: ,Þér hafið sjálfir séð, hvað ég hefi gjört Egyptum, og hversu ég hefi borið yður á arnarvængjum og flutt yður til mín. Nú ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín. Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður. Þetta eru þau orð, sem þú skalt flytja Ísraelsmönnum."
Sálmur:
Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni! Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng! Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð. Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.
Síðari ritningarlestur:
Bréf Páls til RómverjaMeðan vér enn vorum óstyrkir, dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega. Annars gengur varla nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann, _ fyrir góðan mann kynni ef til vill einhver að vilja deyja. _ En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum. Þar sem vér nú erum réttlættir fyrir blóð hans, því fremur mun hann frelsa oss frá reiðinni. Því að ef vér vorum óvinir Guðs og urðum sættir við hann með dauða sonar hans, því fremur munum vér frelsaðir verða með lífi sonar hans, nú er vér erum í sátt teknir. Og ekki það eitt, heldur fögnum vér í Guði fyrir Drottin vorn Jesú Krist, sem vér nú höfum öðlast sáttargjörðina fyrir.
Guðspjall:
MatteusarguðspjallEn er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa. Þá sagði hann við lærisveina sína: "Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar." Og hann kallaði til sín lærisveina sína tólf og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum, að þeir gætu rekið þá út og læknað hvers kyns sjúkdóm og veikindi. Nöfn postulanna tólf eru þessi: Fyrstur Símon, sem kallast Pétur, og Andrés bróðir hans, þá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróðir hans, Filippus og Bartólómeus, Tómas og Matteus tollheimtumaður, Jakob Alfeusson og Taddeus, Símon vandlætari og Júdas Ískaríot, sá er sveik hann. Þessa tólf sendi Jesús út og mælti svo fyrir: "Haldið ekki til heiðinna manna og farið ekki í samverska borg. Farið heldur til týndra sauða af Ísraelsætt. Farið og prédikið: Himnaríki er í nánd. Læknið sjúka, vekið upp dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda. Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.