Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
10. sunnudagur, ár A


Fyrsti ritningarlestur:

Hósea

Vér viljum og þekkja, kosta kapps um að þekkja Drottin - hann mun eins áreiðanlega koma eins og morgunroðinn rennur upp - svo að hann komi yfir oss eins og regnskúr, eins og vorregn, sem vökvar jörðina." Hvað skal ég við þig gjöra, Efraím, hvað skal ég við þig gjöra, Júda, þar sem elska yðar er eins hvikul og morgunský, eins og döggin, sem snemma hverfur? Fyrir því verð ég að vega að þeim fyrir munn spámannanna, bana þeim með orði munns míns, og fyrir því verður dómur minn að birtast eins óbrigðult og dagsljósið rennur upp. Því að á miskunnsemi hefi ég þóknun, en ekki á sláturfórn, og á guðsþekking fremur en á brennifórnum.


Sálmur:

Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar. Eigi er það vegna fórna þinna, að ég ávíta þig, brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér. Væri ég hungraður, mundi ég ekki segja þér frá því, því að jörðin er mín og allt sem á henni er. Et ég nauta kjöt, eða drekk ég hafra blóð? Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald Hinum hæsta þannig heit þín. Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig."


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Rómverja

Abraham trúði með von, gegn von, að hann skyldi verða faðir margra þjóða, samkvæmt því sem sagt hafði verið: "Svo skal afkvæmi þitt verða." Og ekki veiklaðist hann í trúnni þótt hann minntist þess, að hann var kominn að fótum fram - hann var nálega tíræður, - og að Sara gat ekki orðið barnshafandi sakir elli. Um fyrirheit Guðs efaðist hann ekki með vantrú, heldur gjörðist styrkur í trúnni. Hann gaf Guði dýrðina, og var þess fullviss, að hann er máttugur að efna það, sem hann hefur lofað. "Fyrir því var það honum og til réttlætis reiknað." En að það var honum tilreiknað, það var ekki ritað hans vegna einungis, heldur líka vor vegna. Oss mun það tilreiknað verða, sem trúum á hann, sem uppvakti Jesú, Drottin vorn, frá dauðum, hann sem var framseldur vegna misgjörða vorra og vegna réttlætingar vorrar uppvakinn.


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Þá er hann gekk þaðan, sá hann mann sitja hjá tollbúðinni, Matteus að nafni, og hann segir við hann: "Fylg þú mér!" Og hann stóð upp og fylgdi honum. Nú bar svo við, er Jesús sat að borði í húsi hans, að margir tollheimtumenn og bersyndugir komu og settust þar með honum og lærisveinum hans. Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við lærisveina hans: "Hvers vegna etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum?" Jesús heyrði þetta og sagði: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru. Farið og nemið, hvað þetta merkir: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.` Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara."