Stella Maris

Maríukirkja

 

Trúfræðslurit Kaþólsku Kirkjunnar

 

 

POSTULLEG REGLUGERÐ - FIDEI DEPOSITUM

VIÐ ÚTGÁFU TRÚFRÆÐSLURITS KAÞÓLSKU KIRKJUNNAR SEM UNDIRBÚIÐ VAR Í KJÖLFAR ANNARS ALMENNA KIRKJUÞINGSINS Í VATÍKANINU

JÓHANNES PÁLL, BISKUP ÞJÓNN ÞJÓNA GUÐS

TIL ÆVARANDI MINNINGAR

Til minna heiðruðu bræðra, kardínála, patríarka, erkibiskupa, biskupa, presta djákna og til alls lýðs Guðs.

VARÐVEISLA TRÚARARFSINS ER ERINDIÐ SEM DROTTINN FÓL KIRKJU SINNI og sem hún uppfyllir á hverjum tíma. Annað almenna kirkjuþingið í Vatíkaninu, sem var opnað fyrir 30 árum af fyrirrennara mínum, Jóhannesi XXIII páfa sællar minningar, hafði það að tilgangi og stefnu að varpa ljósi á postullegt og hirðislegt erindi kirkjunnar og að fá alla menn, með því að láta sannleika guðspjallsins ljóma, til að leita og læra að þekkja kærleika Krists, sem tekur allri þekkingu fram (sbr. Ef 3:19).

Meginverkefnið sem Jóhannes XXIII páfi fól þinginu var að varðveita og kynna á betri hátt hinn dýrmæta arf kristinnar kenningar í því skyni að hún yrði betur aðgengilegri þeim sem játa trú á Krist og öllum þeim sem hafa góðan vilja. Þess vegna átti þingið ekki fyrst af öllu að fordæma villur líðandi stundar heldur átti það umfram allt að leitast við að sýna af stillingu styrk og fegurð trúarkenningarinnar. "Upplýst af ljósi þessa þings," sagði páfinn, "verður kirkjan meiri í andlegri auðlegð sinni og þar sem hún mun öðlast styrk og nýjan þrótt með þeim hætti, mun hún líta til framtíðar óttalaus.… Skylda okkar er sú að helga okkur af fullri alvöru og án ótta því verki sem okkar tímaskeið krefst af okkur og halda áfram á þeirri leið sem kirkjan hefur fylgt í 20 aldir." [1]

Með aðstoð Guðs tókst þingfeðrunum með fjögurra ára starfi sínu að gefa út töluverðan fjölda yfirlýsinga á kenningarlegum grunni sem og hirðisreglur sem gefnar voru kirkjunni í heild sinni. Þar finna bæði hirðar og trúendur leiðbeiningar fyrir þá "endurnýjun á hugsun, athöfn, iðkun, siðferðislegri dyggð, gleði og von sem var tilgangur þingsins". [2] Eftir að þinginu lauk hélt það áfram að vera lífi kirkjunnar innblástur. Árið 1985 gat ég sagt eftirfarandi: "Fyrir mig, sem fékk þá sérstöku náð að taka þátt í því og eiga virkan þátt í þróun þess, hefur annað Vatíkanþingið, sérstaklega á þessum árum páfadóms míns, ávallt verið fastur viðmiðunargrundvöllur í öllum hirðislegum athöfnum mínum þegar ég með ráðnum huga hrindi í framkvæmd tilskipunum þess og geri það með raunhæfum hætti og af trúmennsku í hverri kirkju og í kirkjunni í heild sinni." [3]

Í þessum anda kallaði ég biskupasynodus til aukafundar þann 25. janúar 1985 í tilefni af því að 20 ár voru liðin frá lokum þingsins. Tilgangur fundarins var að vegsama náðargjafir og andlega ávexti annars Vatíkanþingsins og að rannsaka með dýpri hætti kenningar þess í því skyni að allir þeir sem trú hafa á Krist megi betur fylgja þeim, og til að stuðla að þekkingu á þeim og hvernig þeim skuli komið í framkvæmd. Við það tækifæri sögðu synodusfeðurnir: "Mjög margir hafa látið í ljós þá ósk sína að samið yrði trúfræðslurit eða handbók sem geymdi allan hinn kaþólska lærdóm um bæði trú og siðfræði sem gæti svo að segja orðið grundvöllur og tilvísun fyrir trúfræðslurit eða handbækur sem samin eru í hinum ýmsu löndum. Þegar kenningin er birt verður hún að vera biblíuleg og helgisiðaleg. Hún verður að vera traust kenning sem löguð er að núverandi lífi kristinna manna." [4] Eftir að þessu synodus lauk gerði ég þessa ósk að minni og taldi hana "bregðast að fullu við raunverulegri þörf allrar hinnar almennu kirkju og staðbundinna kirkna". [5] Af þessari ástæðu þökkum við Drottni af öllu hjarta á þessum degi þegar við getum boðið allri kirkjunni þennan "tilvísunartexta", Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar, til trúfræðslu sem hefur endurnýjast við hina lifandi uppsprettu trúarinnar!

Í kjölfar endurnýjunar á helgisiðunum og hinni nýju útgáfu á kirkjurétti fyrir latnesku kirkjuna og útgáfu á kirkjurétti fyrir austurlensku kaþólsku kirkjurnar, mun þetta trúfræðslurit vera mjög mikilvægt framlag til þess verks sem er að endurnýja allt líf kirkjunnar eins og annað Vatíkanþingið óskaði eftir og hóf að gera.

1. Þróunin við að undirbúa textann og hugsunin þar að baki

Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar er árangur mjög víðtæks samstarfs; undirbúningsvinnan stóð yfir í 6 ár og mótaðist hún af algerri hreinskilni og brennandi áhuga.

Árið 1986 fól ég nefnd 12 kardínála og biskupa undir stjórn Jósefs kardínála Ratzinger það hlutverk að undirbúa uppkast að trúfræðsluritinu sem syndousfeðurnir höfðu óskað eftir. Ritstjórn, sem í sátu 7 biskupsdæmisbiskupar, sérfræðingar í guðfræði og trúfræðslu, aðstoðaði nefndina í verkefni sínu.

Nefndin, sem hafði það verkefni með höndum að gefa leiðbeiningar og hafa umsjón með gangi verksins, fylgdist náið með allri ritstjórnarvinnunni við þau 9 uppköst sem fylgdu í kjölfarið. Að því er varðar ritstjórnina þá tók hún á sig þá ábyrgð að skrifa textann, gera leiðréttingar sem nefndin óskaði eftir og kanna athugasemdir sem komu frá fjölda guðfræðinga, biblíuskýrenda, trúfræðara og umfram allt frá biskupum alls heimsins í því skyni að bæta textann. Nefndin bar saman mismunandi skoðanir og hafði það mikla kosti í för með sér. Þannig varð til auðugri texti þar sem einingar og samræmis gætir.

Verkefnið varð tilefni víðtæks samráðs milli kaþólskra biskupa, biskupsráðstefna þeirra eða synodus, og guðfræði- og trúfræðslustofnanna. Almennt var því vel tekið af biskupsdæmunum. Það má segja að þetta Trúfræðslurit sé árangur samráðs allra biskupsdæma kaþólsku kirkjunnar sem af göfuglyndi sínu þáðu boð mitt um að deila ábyrgð á framkvæmd sem varðar með beinum hætti líf kirkjunnar. Þessi viðbrögð færa mér mikla gleði vegna þess að samhljómur svo margra radda lætur vissulega í ljós það sem kalla má "sinfóníu" trúarinnar. Framkvæmdin á þessu Trúfræðsluriti endurspeglar þannig félagslegt eðli biskupsdæmanna; hún er til vitnis um að kirkjan er kaþólsk.

2. Niðurröðun á efninu

Trúfræðslurit á að kynna á traustan og kerfisbundinn hátt kenningar Heilagrar Ritningar, kenningar hins sanna kennsluvalds og hinar lifandi erfikenningu kirkjunnar, sem og andlega arfleifð kirkjufeðranna, kirkjufræðaranna og dýrlinga kirkjunnar, til að með þeim hætti fáist betri þekking á hinum kristna leyndardómi og að trú lýðs Guðs styrkist. Það á að hafa til hliðsjónar yfirlýsingar er hafa kenningarlegt gildi og Heilagur Andi hefir í gegnum aldirnar minnst á við kirkju sína. Það á einnig að aðstoða við að lýsa upp með ljósi trúarinnar þær nýju aðstæður og vandamál sem fortíðin hafði enga þekkingu á.

Þetta trúfræðslurit mun þannig geyma bæði hið nýja og hið gamla (sbr. Mt 13:52) vegna þess að trúin er ávallt hin sama en er engu að síður ævarandi uppspretta nýrrar birtu.

Til að bregðast við þessari tvöföldu kröfu, mun Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar annars vegar endurtaka hið "gamla", hafa hina hefðbundnu skipan sem þegar var fylgt í Trúfræðsluriti heilags Píusar V, þar sem efninu er raðað niður í 4 hluta: trúarjátningin, hinir heilögu helgisiðir, þar sem sakramentin eru sett í öndvegi, kristilegt líferni, sem útskýrt er út frá boðorðunum tíu, og að lokum hin kristna bæn. En til að bregðast við spurningum okkar tíma er efnið sömuleiðis oft kynnt með "nýjum" hætti. Hlutarnir fjórir eru tengdir hver öðrum: hinn kristni leyndardómur er viðfang trúarinnar (fyrsti hluti); hann er hafður um hönd og honum miðlað í helgisiðaathöfnum (annar hluti); hann er nærverandi til að upplýsa og styrkja börn Guðs í athöfnum sínum (þriðji hluti); hann er grundvöllur bænar okkar sem fær æðstu tjáningu sína í Faðirvorinu og hann stendur fyrir það sem er viðfang bæna okkar, lofgjörðar okkar og árnaðar okkar (fjórði hluti).

Helgisiðirnir sjálfir eru bæn; játning trúarinnar finnur sinn rétta grunn þegar tilbeiðslan er haldin. Náðin, ávöxtur sakramentanna, er óumflýjanlegt skilyrði fyrir kristilegu líferni á sama hátt og þátttaka í helgisiðum kirkjunnar krefst trúar. Ef trúin er ekki tjáð í verkum er hún dauð (sbr. Jk 2:14-16) og getur ekki borið ávöxt til eilífs lífs. Við lestur Trúfræðslurits kaþólsku kirkjunnar fáum við skilið hina dásamlegu einingu í leyndardómi Guðs, í vilja hans til að frelsa, sem og miðlæga stöðu Jesú Krists, hins eingetna Sonar Guðs, sendan af Föðurnum, sem gerðist maður í skauti sællar Maríu meyjar fyrir mátt Heilags Anda til að vera frelsari okkar. Eftir að hafa dáið og risið upp er Kristur ávallt nærverandi í kirkjunni, sérstaklega í sakramentunum; hann er uppspretta trúar okkar, fyrirmynd kristinnar breytni og lærimeistari bænar okkar.

3. Kenningarlegt gildi textans

Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar, sem ég samþykkti 25. júlí síðastliðinn og hef í dag ákvarðað útgáfu á í krafti postullegs myndugleika míns, er yfirlýsing um trú kirkjunnar og hina kaþólsku kenningu, vottfest eða útskýrð af Heilagri Ritningu, hinni postullegu erfikenningu og kennsluvaldi kirkjunnar. Ég lýsi því yfir að það er örugg viðmiðun við kennslu á trúnni og þannig gilt og lögmætt verkfæri fyrir hið kirkjulega samfélag. Megi það þjóna þeirri endurnýjun sem Heilagur Andi kallar kirkju Guðs linnulaust til, líkama Krists, á vegferð hennar sem pílagrímur til ljóss Guðsríkis sem aldrei fellur skuggi á.

Samþykki og útgáfa á Trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar er þjónusta sem eftirmaður Péturs vill koma á framfæri við hina heilögu kaþólsku kirkju og allar þær staðbundnu kirkjur sem eru í friði og samneyti við páfastólinn: það er þjónusta til stuðnings og styrkingar trú allra lærisveina Drottins Jesú (sbr. Lk 22:32) sem og til að styrkja einingarböndin í hinni sömu postullegu trú.

Þess vegna bið ég alla hirða kirkjunnar og hina trúuðu Krists að taka við þessu trúfræðsluriti í samfélagsanda og að nota það oft við að uppfylla erindi sitt að kunngera trúna og kalla fólk til lífs í samræmi við guðspjallið. Þetta trúfræðslurit er gefið þeim sem öruggur og sannur tilvísunartexti til að kenna kaþólska kenningu og einkum og sér í lagi til að undirbúa staðbundna trúfræðslu. Það stendur einnig hinum trúuðu til boða sem vilja dýpka þekkingu sína á hinni óræðu auðlegð hjálpræðisins (sbr. Ef 3:8). Því er ætlað að efla samkirkjulega viðleitni sem hrærist af heilagri þrá eftir einingu allra kristinna manna með því að sýna vandlega innihald og innra samræmi í hinni kaþólsku trú. Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar stendur að lokum öllum þeim til boða sem krefjast raka hjá okkur fyrir þeirri von sem í okkur býr (sbr. 1Pt 3:15) og sem vilja komast til þekkingar á því sem kaþólska kirkjan trúir.

Þessu trúfræðsluriti er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir staðbundin trúfræðslurit sem fengið hafa tilhlýðilega viðurkenningu hjá kirkjuyfirvöldum, biskupum biskupsdæma og biskuparáðstefnum, sérstaklega ef þau hafa hlotið samþykki páfastólsins. Því er ætlað að hvetja til og aðstoða við að semja ný staðbundin trúfræðslurit sem taka tillit til mismunandi aðstæðna og menninga enda þótt þess sé vandlega gætt að varðveita einingu trúarinnar og halda tryggð við kaþólska kenningu. Við lok þessa kynningarskjals á Trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar bið ég alsæla Maríu mey, móður hins holdtekna Orðs og móður kirkjunnar, að styrkja með sínum máttuga árnaði trúfræðslustarf allrar kirkjunnar á öllum stigum þess, á þessum tíma þegar hún er kölluð til nýs átaks við boðun fagnaðarerindisins. Megi ljós hinnar sönnu trúar frelsa mannkynið frá fáfræði og ánauð syndarinnar til að leiða það til þess eina frelsis sem verðugt er því nafni (sbr. Jh 8:32): þess sem er líf í Jesú Kristi undir leiðsögn Heilags Anda, hér neðra og í konungsríki himinsins, í fullnustu hinnar sælu sýnar á Guði auglitis til auglitis (sbr. 1Kor 13:12; 2Kor 5:6-8)!

Gert þann 11. október 1992 þegar þrjátíu ár voru liðin frá opnun annars almenna kirkjuþingsins í Vatíkaninu, á fjórtánda ári páfadóms míns.

Joannes Paulus pp II


Óopinber útgáfa © Reynir K. Guðmundsson þýddi


  1. Jóhannes XXIII, ræða við opnun annars almenna kirkjuþingsins í Vatíkaninu, 11. október 1962: AAS 54 (1962), bls. 788-91.
  2. Páll VI, ræða við lok annars almenna kirkjuþingsins í Vatíkaninu, 7. desember 1965: AAS 58 (1966), bls. 7-8.
  3. Jóhannes Páll II, ræða 25. janúar 1985: L'Osservatore Romano, 27. janúar 1985.
  4. Lokaskýrsla aukafundar biskupasynodus, 7. desember 1985, Enchiridion Vaticanum, 9. bindi; II, B, a, n 4: s. 1758, n.. 1797.
  5. Jóhannes Páll II, ræða við lok aukafundar biskupasynodus, 7. desember 1985, n. 6: AAS 78 (1986) s. 435.