Stella Maris

Maríukirkja


Stjarna Hafsins

Maríukirkja, Kirkja Maríu, Stjörnu Hafsins

Maríukirkja í Breiðholti var tekin í notkun 25. mars árið 1985 og var vígð 24. maí árið 2001.

Að vígslumessunni lokinni færði biskupinn, Jóhannes Gijsen, sókninni styttu. Það var brjóstmynd af verndara sóknarinnar, Maríu, Stjörnu Hafsins. Brjóstmyndin sýnir andlit Guðsmóðurinnar eins og hún hefur verið heiðruð í margar aldir í basilíku Vorrar Frúar í Maastricht í Hollandi, þar sem María heldur á barninu Jesú.

Þessi brjóstmynd var gjöf herra Alfons Castermans, fyrrum aðstoðarbiskups í Roermond, sem Maastricht biskupsdæmið tilheyrir og sem hið forna Skálholtsbiskupsdæmi heyrði undir. Vegna þessara tengsla við Ísland, var það ósk biskupsins að sýna þau með þessari gjöf.

Þessa styttu ber fyrir augu þeirra sem ganga inn í Maríukirkju. Hún er þar í anddyrinu. María tekur þar á móti gestum sem koma í kirkju hennar og leiðir þá til Sonar hennar, sem bíður þeirra þar. Að auki verndar hún sóknina, sem er helguð henni.

Stjarna Hafsins, saga styttunnar

Kraftaverka styttan af Vorri Frú, Stjörnu Hafsins, er 135 sm. há stytta, skorin út í tré. Þetta verk býr yfir ákaflega mikilli fegurð. Djúp virðing er borin fyrir styttunni, einkum í Hollandi.

Mikil virðing fyrir Maríu, móður Jesú, nær allt aftur til fyrstu daga kristindóms. Í Maastricht í Hollandi var fyrsta kapellan, þeim megin Alpafjalla, helguð henni. Seinna varð þessi kapella þýðingarmikill pílagrímastaður. Kapellan sjálf stóð á bökkum árinnar. Þar hafði gömul stytta verið heiðruð, en seinna kom önnur í hennar stað. Það var iðnaðarmannafélag sútara, sem gaf nýju styttuna og áður en langt um leið var hún ekki minna heiðruð en sú fyrri, einkum af sjómönnum. Nýja styttan var gerð á árunum 1420-1430 í Bæheimi. Titlinum "Stjarna Hafsins" var bætt við í kringum árið 1700, eftir undursamlega mannbjörg úr skipsskaða. Fyrrum hafði styttan verið þekkt sem Vor Frú frá Maastricht.

Í dag er Stjarna Hafsins frá Maastricht víða vel þekkt. Þúsundir mynda af henni, með sitt himneska bros, var að finna á veggjum heimila, klaustra, skóla, hermannaskála, skipa og sjúkrahúsa. Í kapellu Stjörnu Hafsins í Maastricht er alltaf einhver að biðja.

Bræðralag Vorrar Frúar, Störnu Hafsins, eru samtök sem verið hafa við líði í margar aldir. Þetta bræðralag sér um styttuna og heiðrun hennar. 15. ágúst er aðalhátíð Stjörnu Hafsins í borginni Maastrich og umhverfi. Fyrrum borgarstjóri í Maastricht, Michiels van Kessenich barón, sagði: "Þeir sem þekkja sorgina í fjölskyldu, þar sem engin móðir er, vita líka hversu rík við erum að hafa Maríu, móður okkar, í kirkjunni okkar".

Bæn til Stjörnu hafsins

María, Stjarna hafsins lít þú hingað til mín,
þar sem ég krýp frammi fyrir náðarhásæti þínu,
þar sem svo margir sem elska móðurhjarta þitt
hafa orðið aðnjótandi hinnar mestu náðar,
þar sem þú hefur aflað hryggum huggunar,
fátækum hjálpar, sjúkum heilbrigði,
syndurum fyrirgefningar.
Kær móðir mín ég kem til þín
með mínu mesta trúnaðartrausti.
Kraftaverkin mörgu sem gerst hafa fyrir bænarstað þinn, veita mér, vesælum syndara,
bjargfasta von um að þú,
móðir miskunnarinnar, viljir líka hlýða á bæn mína.
Já, ég ákalla þig og bið, unaðslega móðir,
elskuverða Stjarna hafsins,
lát þú mig ekki fara héðan án bænheyrslu.

Þú getur hjálpað mér,
því að þú er máttugust næst Guði,
þú ert fús til að hjálpa mér,
því að þú ert full kærleika til allra barna þinna.
Minnstu þess, miskunnsama móðir,
að aldrei hefur verið sagt að neinn,
sem leitað hefur verndar þinnar með trúnaðartrausti,
hafi farið bónleiður frá þér.
Ætti ég þá að vera fyrsti vansæli maðurinn
sem þú létir frá þér fara án bænheyrslu?
Nei, nei, góða móðir.
Á þessum helga stað getur þú,
fyrir máttuga fyrirbæn þína,
aflað mér hjálpar í neyð minni
og huggunar í kvöl minni. Amen.