Stella Maris

Maríukirkja

Prédikun séra Denis, Sunnudag 13. apríl 2003

Í dag er pálmasunnudagur og við minnumst að Jesús reið inn í Jerúsalem sem hinn sigurhrósandi Messías og fólkið veifaði pálmaviðargreinum. Innan viku mun annar hópur fólks steyta hnefa sinn og hrópa: “Krossfestið hann!”

Gerum við okkur grein fyrir því að með pálmasunnudegi, hefst hátíðlegasta vikan í kirkjuárinu? Þessa viku höldum við upp á ýmsa atburði sem gerðust á síðustu jarðvistardögum Jesú, áður en hann dó á krossinum. Ef einhvern tíma er ástæða til þess að sækja kirkju, þá er það einmitt þessa viku.

  • Þetta er ekki tími til sjónvarpsáhorfs, heldur tími til að vaka og biðja.

  • Þetta er ekki tími til að skemmta sér heldur tími iðrunar.

  • Þetta er ekki tími til að stunda boð og veisluhöld eða að sækja kvikmyndahús, heldur tími til þess að sækja kirkju, vegna þess að þessi vika snýst um sáluhjálp okkar!

    Krossinn er miðpunktur þessarar viku og skuggi hans fellur á allt sem fyrir kemur. Í augum sumra er krossinn tákn ósigurs en aðrir líta til hans sem sigurtákns og tákns um hinn mikla kærleika Guðs til mannanna. Fyrir krossinn opinberast Jesús okkur sem frelsari heimsins.

    Dymbilvikan býður okkur að ganga, ásamt Jesú og Maríu, veg þjáningarinnar til Golgata, og staldra þar við undir krossinum. Hinar miklu þjáningar Jesú, sem við minnumst sérstaklega þessa viku, hafa veitt óteljandi fólki styrk í 2000 ár. Þjáning hans og kvöl veita okkur innsýn inn í leyndardóm þjáningarinnar, sem er hluti af lífsreynslu okkar allra. Þar sem Jesús reis upp til nýs lífs getum við verið fullviss um að okkar eigin þjáning er ekki meiningarlaus.

  • Það er við krossinn sem við heyrum Jesú segja: “Faðir, fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gera.” Þessum orðum var fyrst og fremst beint til þeirra sem höfðu krossfest hann, en eiga þó einnig við um okkur öll, þar sem við höfum krossfest Jesú með syndum okkar!

  • Það er við krossinn sem við sjáum blóð Jesú þvo burt syndir okkar.

  • Og það er við krossinn sem við sjáum hið geislandi tákn um frelsun heimsins.

    Jesús sagði að ef við vildum verða lærisveinar hans, yrðum við að bera kross okkar og fylgja honum dag hvern. Kross þjáningarinnar er nauðsynlegur hluti í lífi sérhvers kristins manns. Atburðir dymbilvikunnar hjálpa okkur að skilja betur hvað er að gerast í okkar eigin lífi með tillit til þjáningarinnar.

    Í augum kristinna manna gnæfir kross Jesú yfir söguna. Við skulum þess vegna ekki skammast okkar fyrir krossinn, heldur gleðjast og hrósa okkur af honum . Setjum kross eða róðukross upp á heimilum okkar og berum einn slíkan nærri hjartastað. Það var ekki bara maður sem dó fyrir okkur á krossinum, heldur Sonur Guðs.

    Heilagur Páll segir: “Fjarri sé það mér að hrósa mér af öðru en krossi Drottins vors Jesú Krists.” Guð forði okkur frá því að hrósa okkur af nokkru nema krossi Jesú.