Úrdráttur úr skjalinu "Dominus Iesus"
I. Fylling og endanleiki opinberunar Jesú Krists
Gegn þeirri kenningu að auðkenni opinberunar Jesú Krists sé takmarkað, ófullgert eða ófullkomið og sé til uppfyllingar því sem sé að finna í öðrum trúarbrögðum endurtekur yfirlýsingin kennslu kaþólskrar trúar um fulla og algera opinberun á hjálpræðisleyndardómi Guðs í Jesú Kristi. Þar sem Jesús er sannur Guð og sannur maður eru orð hans og athafnir fullgerð og endanleg opinberun á leyndardómi Guðs, jafnvel þótt djúp þess leyndardóms séu í sjálfu sér yfirskilvitleg og ótæmandi. Þar af leiðandi, enda þótt það sé játað að önnur trúarbrögð endurspegli ósjaldan ljósbroti þess sannleika sem upplýsir alla menn (sbr. annað Vatíkanþingið, yfirlýsingin Nostra Aetate, 2), ítrekar yfirlýsingin að hvergi sé að finna innblásinn texta nema í hinum kanónísku bókum Gamla og Nýja testamentisins vegna þess að þær eru innblásnar af Heilögum Anda, hafa Guð að höfundi og kenna staðfastlega, einlæglega og án villu sannleikann um Guð og hjálpræði mannsins. Í yfirlýsingunni segir ennfremur að hiklaust verði að gera greinarmun á milli guðdómlegrar trúar, sem er hollusta við sannleikann eins og hann er opinberaður af hinum eina og þríeina Guði, og trúar í öðrum trúarbrögðum sem felst í trúarlegri reynslu er leitar enn hins endanlega sannleika og hefur enn ekki játað Guð sem opinberar sig.
II. Hið holdtekna Orð og Heilagur Andi í hjálpræðisverkinu
Gegn fullyrðingunni um tvöfalda fyrirhyggju hjálpræðisins - það sem tekur til hins eilífa Orðs og væri almennt og gilti einnig utan kirkjunnar og það sem tekur til hins holdtekna Orðs og mundi einskorðast við kristna menn - ítrekar yfirlýsingin að um sé að ræða eina einstaka fyrirhyggju hjálpræðis hins eina holdtekna Orðs, Jesú Krists, eingetins Sonar Föðurins. Leyndardómur holdtekju, dauða og upprisu hans er hin eina og almenna uppspretta hjálpræðis til handa öllu mannkyni. Reyndar hefur leyndardómur Krists sína eiginlegu einingu sem nær frá hinu eilífa vali í Guði til endurkomu Krists (parousia): Áður en heimurinn var grundvallaður hefur hann [Faðirinn] útvalið oss í Kristi (Ef 1:4). Jesús er meðalgangarinn og hinn almenni endurlausnari. Því er kenningin röng um fyrirhyggju hjálpræðis Heilags Anda er hafi almennari einkenni en hið holdtekna Orð, krossfest og upprisið. Heilagur Andi er Andi hins upprisna Krists og ekki er hægt að staðsetja athafnir hans utan við eða samhliða Kristi. Ein er fyrirhyggja þrenningarinnar en hún er að vilja Föðurins og uppfyllist í leyndardómi Krists með starfi Heilags Anda.
III. Einn einstakur og almennur hjálpræðisleyndardómur Jesú Krists
Yfirlýsingin ítrekar að hinn eini einstaki hjálpræðisleyndardómur Jesú Krists sé almennur og að hann hafi fyrir holdtekju sína, dauða og upprisu látið hjálpræðissöguna rætast; í Jesú Kristi hefur hjálpræðissagan fyllingu sína, miðju sína og uppsprettu. En samtímis útilokar einstök meðalganga Krists ekki meðalgöngu af mismunandi gerðum og gráðum þar sem aðrir eiga þátt; slíkar meðalgöngur hafa hins vegar einungis merkingu eða gildi vegna meðalgöngu Krists og ekki má setja þær jafnhliða hans eða telja að þær bæti þar einhverju við. Kenningar um hjálpræðislegar athafnir Guðs utan hinnar einstöku meðalgöngu Krists stríða gegn kaþólskri trú.
IV. Ein einstök kirkja og eining hennar
Drottinn Jesús heldur áfram að vera nálægur og vinna hjálpræðisverk sín í kirkjunni og eftir leiðum kirkjunnar sem er líkami hans. Með líkum hætti og höfuðið og limirnir á hinum lifandi líkama eru óaðskiljanlegir, enda þótt þeir séu ekki nákvæmlega eins, þannig getur Kristur og kirkjan hvorki runnið saman né verið skilin að. Þess vegna verður að trúa því staðfastlega sem sannleika kaþólskrar trúar að hvað viðvíkur hinni einu einstöku og almennu meðalgöngu Jesú Krists sem leiðir til hjálpræðis, er kirkjan sem hann stofnsetti ein einstök kirkja. Þess er krafist af þeim sem játa kaþólska trú að þeir játi að það sé söguleg samfelld milli kirkjunnar sem Kristur stofnaði og kaþólsku kirkjunnar. Raunar er þessa einu kirkju Krists að finna þar sem er hin kaþólska kirkja sem stjórnað er af arftaka Péturs og biskupunum með honum (annað Vatíkanþingið, kenningarbundna reglugerðin Lumen Gentium, 8). Hvað varðar mörg sannleiksatriði (trúar) og helgunar (sama) sem finna má utan múra kirkjunnar, það er að segja, í þeim kirkjum og kirkjusamfélögum sem enn eru ekki í fullu samneyti við kaþólsku kirkjuna, verður að geta þess að þau öðlast gagn sitt af þeirri fullnustu náðar og sannleika sem kaþólsku kirkjunni hefur verið trúað fyrir (annað Vatíkanþingið, tilskipunin Unitatis Redintegratio, 3). Þær kirkjur sem viðurkenna ekki hina kaþólsku kenningu um yfirtign Rómarbiskups eru í einingu við kaþólsku kirkjuna eftir leiðum sem tengir þær nánum böndum, það er, með hinni postullegu vígsluröð og fullgildri evkaristíu. Þess vegna er kirkja Krists nærverandi og virk einnig í þessum kirkjum enda þótt þær séu ekki í fullu samneyti við kaþólsku kirkjuna. Hins vegar eru þau kirkjusamfélög ekki kirkjur í eiginlegri merkingu sem hafa ekki haldið sig við fullgilt biskupsstjórnarfyrirkomulag og sanna og óskipta innri verund (substantia) hins evkaristíska leyndardóms; engu að síður eru þeir sem skírðir eru í þessum samfélögum á vissan hátt í samneyti við kaþólsku kirkjuna enda þótt það sé með ófullkomnum hætti. Þess vegna hafa þessar aðskildu kirkjur og samfélög, enda þótt við trúum því að þau hafi annmarka, ekki glatað gildi og mikilvægi í leyndardómi hjálpræðisins (annað Vatíkanþingið, tilskipunin Unitatis Redintegratio, 3).
V. Kirkjan: Ríki Guðs og ríki Krists
Erindi kirkjunnar er að boða og stofna konungsríki Krists og Guðsríki meðal allra þjóða. Hún er fyrsti frjóangi þessa guðsríkis hér á jörðu (Lumen Gentium, 5). Annars vegar er kirkjan merki og verkfæri hinar nánustu einingu við Guð og sameiningar alls mannkyns (sama, 1) og þannig er hún merki og verkfæri ríkisins: hún er kölluð til að kunngera og stofna ríkið. Hins vegar er kirkjan þjóð sem er gerð ein í sameiningu við Föðurinn og Soninn og hinn Heilaga Anda (sama, 4): hún er því konungsríki Krists sem er nú meðal okkar á leyndardómsfullan hátt (sama, 3) og myndar fyrstu frjóanga þess. Ýmsar guðfræðilegar skýringar má setja fram varðandi þessar spurningar. Engu að síður er ekki hægt á nokkurn hátt að hafna eða gera að engu hið nána samband er ríkir á milli Krists, ríkisins og kirkjunnar. Raunar verður ríki Guðs sem við þekkjum af opinberuninni hvorki skilið frá Kristi né frá kirkjunni (Jóhannes Páll II, heimsbréfið Redemptoris Missio, 18.). Samt sem áður er ríki Guðs ekki lagt að jöfnu við kirkjuna eins og hún er í sýnilegri og félagslegri gerð sinni. Raunar má ekki undanskilja athafnir Krists og Andans sem eiga sér stað utan sýnilegra marka kirkjunnar (sama). Þegar sambandið á milli ríkis Guðs, ríkis Krists og kirkjunnar er íhugað er nauðsynlegt að forðast einhliða áherslur eins og á sér stað hjá þeim sem þaga um Krist þegar þeir ræða ríki Guðs eða leggja mikla áherslu á leyndardóm sköpunarinnar en eru þögulir um leyndardóm endurlausnarinnar vegna þess - eins og þeir segja - að þeir fá ekki skilið Krist sem hafa ekki kristna trú en aftur á móti geta mismunandi þjóðir, menningar og trúarbrögð fundið sér sameiginlegan grunn í einum guðdómlegum raunveruleika, hverju nafni sem hann nefnist. Ennfremur mun koma að því að ríkið, eins og þeir skilja það, hafi annað hvort afar lítil not fyrir kirkjuna eða dragi úr gildi hennar. Með þessum aðferðum er verið að hafna því að Kristur og kirkjan hafi einn einstakan skyldleika við ríki Guðs.
VI. Kirkjan og hin trúarbrögðin í sambandi við hjálpræðið
Í framhaldi af því sem áður hefur verið sagt er nauðsynlegt að nokkur atriði guðfræðilegrar íhugunar komi fram um það sem sem hér er til umræðu til að kanna samband kirkjunnar og hinna trúarbragðanna þegar kemur að hjálpræðinu. Umfram allt ber staðfastlega að trúa því að kirkjan, nú hér á jörð sem í útlegð, er nauðsynleg til sáluhjálpar; því Kristur, sem er okkur nærverandi í líkama sínum sem er kirkjan, er hinn eini meðalgöngumaður og vegurinn til hjálpræðis (Lumen Gentium, 14). Þessa kenningu má ekki setja upp á móti vilja Guðs um almennt hjálpræði heldur er nauðsynlegt að halda utan um þessi tvö sannindi, það er að segja, að allt mannkyn eigi raunverulegan möguleika á hjálpræði í Kristi og að kirkjan sé nauðsynleg fyrir þetta hjálpræði (Redemptoris Missio, 9). Því að fyrir þá sem ekki eru formlegir meðlimir kirkjunnar er hjálpræði í Kristi aðgengilegt fyrir mátt náðarinnar sem, þótt þeir hafi leyndardómsfullt samband við kirkjuna, setur þá ekki formlega í kirkjuna, heldur upplýsir þá með þeim hætti sem hæfir andlegri og efnislegri aðstöðu þeirra. Þessi náð kemur frá Kristi; hún er árangur fórnar hans og henni er miðlað af Heilögum Anda (sama). Hvað varðar veg náðar Guðs sem kemur til þess sem ekki er kristinn einskorðaði annað Vatíkanþingið sig við yfirlýsinguna um að Guð veitir hana eftir leiðum sem honum einum eru kunnar (annað Vatíkanþingið, tilskipunin Ad Gentes, 7). Í guðfræðinni er þess nú leitað að skilja þessa spurningu með dýpri hætti. En samtímis er það ljóst að það mundi stríða gegn kaþólskri trú að setja kirkjuna sem leið til hjálpræðis til jafns við þær leiðir sem önnur trúarbrögð bjóða upp á. Vissulega geyma hinar ýmsu trúarhefðir trúarþætti sem þær bjóða upp á og eru hluti af því sem Andinn kemur til leiðar í hjarta mannsins og í sögu þjóða, í menningum og trúarbrögðum (Redemptoris Missio, 29). Engu að síður verður ekki sagt að þeir eigi sér guðdómlegt upphaf eða að þeir virki sem sáluhjálp ex opere operato sem er eiginlegt sakramentunum. Þar að auki má ekki gleyma því að taki aðrir trúarsiðir við af hjátrú eða annarri villu (sbr. 1Kor 10:20-21) mynda þeir hindrun á vegi til hjálpræðis. Með komu frelsarans Jesú Krists var það vilji Guðs að kirkjan sem hann stofnaði yrði verkfæri hjálpræðis til handa öllu mannkyni. Þessi trúarsannleikur dregur ekki úr þeirri einlægu virðingu sem kirkjan ber fyrir trúarbrögðum heimsins þótt hún útiloki jafnframt með gagngerum hætti þann hugsunarhátt sem aðhyllist afskiptaleysi í trúarefnum og einkennist af trúarlegri afstæðishyggju sem leiðir til þeirrar sannfæringar að ein trú sé ekki verri en hver önnur" (Redemptoris Missio, 36). Eins og kærleikur hennar til allra manna krefst boðar kirkjan, og er bundin af því að boða, að Kristur er vegurinn, sannleikurinn og lífið (Jh 14:6) en í honum verða mennirnir að leita fullnustu trúarlífsins og í honum sætti Guð allt við sig (sbr. 2Kor 5:18-19) (Nostra Aetate, 2).
Niðurlag
Tilgangurinn með yfirlýsingunni er að ítreka og útskýra viss trúarsannindi frammi fyrir vafasömum eða jafnvel röngum tillögum. Þegar feðurnir á öðru Vatíkanþinginu tóku fyrir spurninguna um sanna trú kenndu þeir: Við trúum því að þessa einu sönnu trú sé áfram að finna í hinn kaþólsku og postullegu kirkju sem Drottinn Jesús treysti fyrir því verkefni að breiða hana út meðal allra manna. Þess vegna sagði hann við postulana: Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni Föðurins, Sonarins og hins Heilags Anda og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður (Mt 28:19-20). Allir menn eru bundnir af því að leita sannleikans, sérstaklega um Guð og kirkju hans, og þegar þeir komast til þekkingar á sannleikanum eru þeir bundnir af því að halda fast við hann og lýsa hollustu sinni við hann (annað Vatíkanþingið, yfirlýsingin Dignitatis Humanae, 1).