Stella Maris

Maríukirkja


Guðleg miskunn Heilög Faustína

Heilög Faustína

Árið 1905 fæddist í Póllandi stúlka, sem fékk nafnið Helena Kowalska. Hún var þriðja barn foreldra sinna, en þau eignuðust tíu börn. Helena hlaut gott kristilegt uppeldi, elsku til Guðs og virðingu fyrir öðrum mönnum. Allt líf hennar einkenndist síðan af þessum dyggðum. Tvítug að aldri gekk Helena í reglu Systra af vorri Frú miskunarinnar. Þar hlaut hún nafnið systir María Faustína. Í þessu samfélagi eyddi hún þeim þrettán árum sem hún átti eftir ólifað. Áköf elska og kærleikur til Guðs og manna leiddi hana upp á tind sjálfsfórnar og hetjulundar. Einkennandi fyrir líf systur Faustínu var hollusta hennar við hina guðlegu miskunn og traust á Jesú, sem hún lagði sig fram um að glæða hjá þeim sem kynntust henni.

Systir Faustína lést 5. október árið 1938. Jesús birtist systur Faustínu alloft. Eitt sinn heyrði hún rödd sem sagði: "Dóttir mín, vertu iðin við að færa í letur hverja setningu (hvert orð), sem ég segi þér og varðar miskunn mína af því að það er ætlað mörgum sálum, sem njóta munu gagns af því."


Níu daga bæn til hinnar Guðlegu Miskunnar (Divine Mercy)

HÁTÍÐ HINNAR GUÐLEGU MISKUNNAR
Samkvæmt dagbók heilagrar Faustínu Kowalska

Jesús bað um sérstakan hátíðisdag til minningar um miskunn Drottins. Skyldi hann vera tákn um hina umburðarlyndu ást er fyrirgefur þeim er treysta honum. Jesús sagði við systur Faustínu: "Ég vil að þessi mynd verði hátíðlega blessuð á fyrsta sunnudegi eftir páska. Sá sunnudagur á að vera hátíðisdagur kirkjunnar og minna á miskunn Guðs. Á þeim degi mun miskunn mín streyma til allra í mun ríkara mæli en ella. Sá sem gengur til skrifta og sækir messu á þessum degi mun öðlast fullkomna fyrirgefningu allra synda, og honum verður ekki gert að afplána þær í hreinsunareldinum. Mannkynið öðlast ekki frið í hjarta sínu fyrr en það snýr sér að miskunn minni."

NÍU DAGA BÆNIN (NOVENA)

Jesús bað um að þeir sem vildu fela sig miskunnsemi hans bæðu níu daga bæn (novena), sem hefjast skyldi á Föstudaginn langa. Hver dagur er helgaður ákveðnu bænarefni en síðasti dagurinn því, sem Jesús taldi sér þungbærast. Það voru hálfvolgar og skeytingarlausar sálir, sem hirtu jafnvel ekki um að meðtaka fórnargjöf hans, ávöxt krossins, hið heilaga altarissakramenti. Í dagbók systur Faustínu segir orðrétt: "Þessar sálir valda mér meiri þjáningu en nokkrar aðrar sálir. Það var tilhugsunin um slíkar sálir, sem olli mér mestum kvölum í Grasgarðinum. Vitneskjan um alla þá, sem ekki myndu þiggja fórnargjöf mína, knúði fram orðin: "Faðir, ef það er þér þóknanlegt, þá vík þessum bikar frá mér". Síðasta von þeirra, sem fram að þessu hafa verið hálfvolgir í trúnni er að flýja á náðir mínar."

 1. Fyrsti dagur: Föstudagurinn Langi.

  "Færðu til mín í dag allt mannkyn, alla synduga menn og dýfðu þeim í haf miskunnar minnar. Þannig huggar þú mig í sorg þeirri, sem glötun sálna veldur mér."

  Miskunnsamasti Jesús, en eðli þitt er að sýna okkur samúð þína og að fyrirgefa okkur, lít þú ekki á syndir okkar heldur á traust það sem við berum til þinnar óendanlegu gæsku. Veit okkur aðgang að bústað þíns samúðarfulla Hjarta, og lát okkur aldrei sleppa þaðan. Þess biðjum við, vegna elsku þinnar sem sameinar þig Föðurnum og hinum Heilaga Anda.

  Eilífi Faðir, lít í miskunn þinni á allt mannkyn, sérílagi á vesæla syndara, sem hið samúðarfulla Hjarta Jesú umlykur. Vegna þungbærra þjáninga Krists, sýn þú okkur miskunn þína, svo að við mættum lofa almáttuga miskunn þína um alla eilífð. Amen

 2. Annar dagur: Laugardagur.

  "Færðu til mín í dag sálir presta og reglufólks, og dýfðu þeim í ómælanlega miskunn mína. Þær veittu mér styrk til að þola þungbæra þjáningu mína. Fyrir þeirra tilstilli flæðir miskunn mín yfir mannkynið"

  Miskunnsamasti Jesús, en frá þér kemur allt gott, auk náð þína í mönnum og konum sem hafa helgað sig þjónustunni við þig, svo að þau megi sinna miskunnar- verkum á verðugan hátt; og að allir sem vitni verða að störfum þeirra megi vegsama Föður miskunarainnar sem er á himnum.

  Eilífi Faðir, lít í miskunn þinni á hina útvöldu á akri þínum - á sálir presta og reglufólks. Veit þeim styrk blessunar þinnar. Vegna kærleikans sem Hjarta Sonar þíns býr yfir og þau eru umlukt, gef þeim kraft og ljós , svo að þeim auðnist að leiða aðra á braut sáluhjálpar og syngja takmarkalausri miskunn þinni lof um alla eilífð. Amen.

 3. Þriðji dagur: Páskasunnudagur.

  "Færðu til mín í dag allar trúaðar sálir, og dýfðu þeim í haf miskunnar minnar. Þær hugguðu mig er ég bar hinn þunga kross. Þær voru sá dropi huggunar í hafi biturleikans."

  Miskunnsamasti Jesús, veit öllum, úr hinum mikla sjóði miskunnar þinnar, ríkulega af náð þinni. Veit okkur aðgang að bústað þíns samúðarfulla Hjarta, og lát okkur aldrei sleppa þaðan. Við biðjum þig þessarar náðar vegna hinnar dásamlegu elsku til hins himneska Föður, en til hans logar Hjarta þitt svo ákaft

  Eilífi Faðir, lít í miskunn þinni á sálir trúaðra, eins og á arfleifð Sonar þíns. Vegna þugbærra þjáninga Hans, veit þeim blessun þína og umvef þær stöðugri vernd þinni. Megi þær þannig aldrei bregðast í kærleikanum né glata fjársjóði hinnar heilögu trúar, heldur megi þær, ásamt öllu englaliði og dýrlingum, miklu fremur vegsama takmarkalausa miskunn þína um ókomnar aldir. Amen.

 4. Fjórði dagur: Annar í páskum.

  "Færðu til mín í dag þá sem ekki trúa á Guð og þá sem þekkja mig ekki ennþá. Ég hugsaði einnig til þeirra í þungbærri þjáningu minni og sá brennandi áhugi og kraftur sem beið þeirra hughreystu hjarta mitt. Dýf þeim í haf miskunnar minnar."

  Samúðarfulli Jesús, þú ert Ljós alls heimsins. Veit þeim sálum, sem trúa ekki á Guð og þeirra sem þekkja þig ekki ennþá, aðgang að bústað þíns samúðarfulla Hjarta. Lát geisla náðar þinnar upplýsa þær, svo að þær geti einnig, ásamt okkur, dásamað yndislega miskunn þína; og lát þær ekki sleppa frá þeim bústað, sem er þitt samúðarfulla Hjarta.

  Eilífi Faðir, lít í miskunn þinni á sálir þeirra, sem trúa ekki á þig, og þeirra sem þekkja þig ekki ennþá, en eru þó umlukin hinu samúðarfulla Hjarta Jesú. Leið þær að ljósi Guðspjallsins. Þessar sálir gera sér ekki grein fyrir því hversu mikil hamingja felst í því að elska þig. Gef að þær megi sömuleðis dásama og lofsyngja örlæti miskunnar þinnar um aldir alda . Amen

 5. Fimmti dagur: Þriðjudagur.

  "Færðu til mín í dag sálir þeirra sem hafa sagt skilið við kirkju mina, og dýfðu þeim í haf miskunnar minnar. Í hinni þungbæru þjáningu minni réðust þær á líkama minn og Hjarta, sem er kirkja mín. Er þær snúa aftur til einingar við kirkjuna gróa sár mín og þannig lina þær þjáningu mina."

  Miskunnsamasti Jesús, gæskan sjálf, þú neitar þeim ekki um ljós sem leita þess hjá þér. Veit aðgang að bústað þíns samúðarfulla Hjarta þeim sálum sem hafa sagt skilið við kirkju þína. Lát ljós þitt draga þær inn í einingu kirkjunnar og lát þær ekki sleppa úr húsakynnum þíns samúðarfulla Hjarta. Sjá þú til þess að þær komi einnig og vegsami örlæti miskunnar þinnar.

  Eilífi Faðir, lít í miskunn þinni á sálir sem hafa skilið sig frá kirkju Sonar þíns, og sólundað blessunum þínum og misnotað náð þína með því að halda í þrjósku sinni fast við villu sína. Lít ekki á villu þeirra, heldur á kærleika þíns eigin Sonar og þungbæra þjáningu hans, sem hann leið þeirra vegna, þar sem þær eru einnig umluktar samúðarfullu Hjarta hans. Kom því þannig fyrir að þær megi sömuleiðis dýrlega gera hina miklu miskunn þína um aldir alda. Amen.

 6. Sjötti dagur: Miðvikudagur.

  "Færðu til mín í dag hógværar og auðmjúkar sálir og sálir lítilla barna, og dýfðu þeim í miskunn mina. Þessar sálir líkjast mest Hjarta mínu. Þær styrktu mig í þungbærri kvöl minni, ég sá þær sem jarðneska engla sem vaka við altari mitt. Ég læt náðarstraum flæða yfir þær. Aðeins hin auðmjúka sál getur tekið við náð minni. Ég styð auðmjúkar sálir með trausti mínu."

  Miskunnsami Jesús, þú hefur sjálfur sagt: "Lærið af mér, því ég er auðmjúkur og af hjarta lítillátur." Veit öllum hógværum og auðmjúkum sálum svo og sálum lítilla barna aðgang að bústað þíns samúðarfulla Hjarta. Þessar sálir gleðja allan himininn gífurlega og þær eru eftirlæti hins himneska Föður. Þær eru eins og blómvöndur frammi fyrir hásæti Guðs sem gefur frá sér sætan ilm; og Guð sjálfur gleðst við þessa blómaangan. Þessar sálir eiga varanleg heimkynni í þínu samúðarfulla Hjarta, kæri Jesús, og án afláts syngja þær kærleiks- og miskunnarsöngva.

  Eilífi Faðir, lít í miskunn þinni á hógværar sálir, á auðmjúkar sálir og á litlu börnin sem búa í hinu samúðarfulla Hjarta Jesú. Þessar sálir líkjast mest Syni þínum. Ilmur þeirra stígur upp frá jörðu og berst hásæti þínu. Faðir miskunarinnar og allrar gæsku, ég bið þig vegna kærleikans sem þú berð til þessara sálna og vegna gleðinnar sem þær veita þér að blessa heim allan svo að allar sálir megi sameiginlega syngja miskunn þinni lof og dýrð um aldir alda. Amen.

 7. Sjöundi dagur: Fimmtudagur.

  "Færðu til mín í dag sálir sem sérílagi heiðra og gera miskunn mina dýrlega, dýfðu þeim í miskunn mina. Þessar sálir hörmuðu þjáningu mina hvað mest og tengdust anda mínum hvað dýpst. Þær eru lifandi eftirmyndir míns samúðarfulla Hjarta. Sálir þessar munu skína einstaklega skært í hinu komandi lífi. Ekki ein þeirra mun ganga inn í eld Heljar. Á dauða- stundinni mun ég sérstaklega verja hverja og eina þeirra."

  Miskunnsamasti Jesús, en Hjarta þitt er sjálfur kærleikurinn, veit þeim sálum sem sérstaklega dásama og heiðra mikilleik miskunnar þinnar, aðgang að bústað þíns samúðarfulla Hjarta. Þessar sálir eru máttugar með kraft Guðs sjálfs. Mitt í öllum raunum og mótlæti halda þær áfram, fullviss um miskunn þína; og sameinuð þér, kæri Jesús, bera þær allt mannkyn á herðum sér. Þessar sálir hljóta ekki harðan dóm, en miskunn þín mun umfaðma þær er þær yfirgefa þetta líf.

  Eilífi Faðir, lít í miskunn þinni á þær sálir sem heiðra og dýrlega gera þinn stærsta eiginleika, þína ómælanlega miklu miskunn, og sem eru umlukt hinu samúðarfulla Hjarta Jesú. Sálir þessar eru sem lifandi guðspjall; hendur þeirra eru fullar miskunnarverka, og hjörtu þeirra, fleytifull af gleði, syngja þér, hinum hæsta, miskunnarsöngva. Guð minn, ég bið þig: sýn þeim miskunn þína í samræmi við vonina og traustið sem þær hafa sett á þig. Lát fyrirheit Jesú rætast í þeim, en hann sagði þeim að á jarðvistardögum þeirra, en þó sérílagi á dauðastundinni, myndi Hann sjálfur vernda sem dýrð sína þær sálir sem heiðruðu þessa ómælanlega miklu miskunn Hans. Amen

 8. Áttundi dagur: Föstudagur.

  "Færðu til mín í dag sálir sem dvelja í hreinsunareldinum, og dýfðu þeim í ómælisdýpi miskunnar minnar. Lát straum blóðs míns kæla þær í þessum brennandi loga. Ég elska allar þessar sálir heitt og innilega. Þær hljóta réttláta refsingu fyrir misgjörðir við réttlæti mitt. Það er í þínu valdi að veita þeim fróun. Sæktu í fjársjóði kirkju minnar öll aflát og framber í þeirra þágu. Ef þú aðeins vissir hversu þær þjást, mundir þú án afláts færa þeim ölmusugjafir andans og greiða skuld þeirra við réttlæti mitt."

  Miskunnsamasti Jesús, þú hefur sjálfur sagt að þú þráir miskunn; þess vegna leiði ég sálirnar í hreinsunareldinum inn í híbýli þíns samúðarfulla Hjarta, sálir sem eru þér afar kærar, og sem eigi að síður verða að bæta fyrir skaða sinn á réttlæti þínu. Megi straumur blóðs og vatns, sem fossaði frá Hjarta þínu slökkva eldana í Hreinsunareldinum, svo að þar megi einnig syngja miskunn þinni lof.

  Eilífi Faðir, lít í miskunn þinni á þær sálir sem þjást í Hreinsunareldinum, og eru hjúpaðar hinu samúðarfulla Hjarta Jesú. Ég bið þig vegna þungbærra þjáninga Jesú, Sonar þíns, og vegna allrar þeirrar biturðar sem flæddi um hans heilögu sál: Lát í ljós miskunn þína við þær sálir sem eru undir réttlátu eftirliti þínu. Lít einungis á þær í gegnum sár Jesú, þíns ástkæra Sonar; af því að við trúum því staðfastlega að engin takmörk séu fyrir gæsku þinni og samúð. Amen.

 9. Níundi dagur: Laugardagur.

  "Færðu til mín í dag sálir sem hafa orðið hálfvolgar, og dýfðu þeim í ómælisdýpi miskunnar minnar. Þessar sálir nísta Hjarta mitt á sársaukafullan hátt. Sál mín leið hræðilega andúð íGetsemane-garðinum vegna hálfvolgra sálna. Þær voru ástæða þess að ég hrópaði: "Faðir, tak þennan bikar frá mér, ef það er vilji þinn." Þeirra eina von um sáluhjálp er að snúa sér til miskunnar minnar."

  Samúðarfulli Jesú, þú ert samúðin sjálf. Ég leiði hálfvolgar sálir inn í híbýli þíns samúðarfulla Hjarta. Í þessum eldi þíns hreina kærleika fylltu þessar volgu sálir þig slíkum viðbjóði, eins og liðið lík. Lát þær aftur brenna af áhuga til þín. Samúðarfulla Hjarta Jesú, lát almætti þitt leiða þær inn í þína miklu elsku, og veit þeim gjöf þíns helga kærleika, því ekkert jafnast á við mátt þinn.

  Eilífi Faðir, lít í miskunn þinni á þær sálir, sem eru þrátt fyrir allt umlukt hinu samúðarfulla Hjarta Jesú. Faðir miskunarinnar, ég bið þig vegna þungbærra þjáninga Sonar þíns og vegna þriggja stunda kvalar hans á krossinum: Lát þær einnig dýrlega gjöra ómælisdýpi miskunnar þinnar. Amen.

 10. Fyrsti sunnudagur eftir Páska: Miskunnar Sunnudagurinn

Systir Faustína var tekin í tölu heilagra Miskunnar Sunnudaginn 30. apríl árið 2000.


Miskunnar rósakransinn

Drottinn Jesús sjálfur las fyrir systur Faustínu bæn sem á íslensku mætti kalla: “Miskunnar rósakransinn” (the Chaplet of Divine Mercy). Þetta skyldi vera bæn um friðþægingu og eins til að sefa reiði Guðs

Þeir sem biðja þessa bæn fórna Guði, Föðurnum, “líkama og blóði, sálu og guðdómi” Jesú Krists til fyrirgefningar synda sinna, synda ættingja sinna og alls heimsins. Með því að sameinast fórn Jesú, ákalla þeir sem bænina biðja hinn mikla kærleika sem hinn himneski Faðir ber til Sonar síns, og fyrir Soninn til alls mannkyns.

Á einum stað sagði Jesús: “Miskunn mín mun umvefja þær sálir, sem fara með þessa bæn, einkum á dauðastundinni”.

MISKUNNARRÓSAKRANSINN er beðinn með hjálp venjulegs Rósakranstalnabands.

Bænin hefst á Faðir vorinu,

Faðir vor, þú sem ert á himnum
helgist þitt nafn,
komi þitt ríki
verði þinn vilji
svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum,
og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Amen.

þá kemur Maríubæn (Heil sért þú María)
Heil sért þú María, full náðar.
Drottinn er með þér; blessuð ert þú meðal kvenna,
og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús.
Heilaga María, Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum,
nú og á dauðastundu vorri.
Amen.
og síðan Postullega trúarjátningin.
Ég trúi á Guð Föður almáttugan, skapara himins og jarðar.
Og á Jesúm Krist, hans einkason, Drottin vorn; sem getinn er af Heilögum Anda, fæddur af Maríu mey; leið undir valdi Pontíusar Pílatusar, var krossfestur, dáinn og grafinn, sté niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, sté upp til himna, situr við hægri hönd Guðs Föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.
Ég trúi á Heilagan Anda, heilaga kaþólska kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu holdsins og eilíft líf.
Amen.

Eftir þennan inngang hefst hin eiginlega miskunnarbæn.
Við stóru perlurnar er beðið:

Eilífi Faðir, ég fórna þér líkama og blóði, sálu og guðdómi þíns heittelskaða sonar, Drottins vors Jesú Krists, til þess að öðlast fyrirgefningu synda vorra og synda alls heimsins.
Við litlu perlurnar er beðið:
Vegna þungbærra þjáninga hans, miskunna þú oss og gjörvöllum heimi.
Við lok talnabandsins er endurtekið þrisvar:
Heilagi Guð, heilagi sterki Guð, heilagi ódauðlegi Guð, miskunna þú oss og gjörvöllum heimi.

 

Þýtt af Jóni Ágústssyni.