Stella Maris

Maríukirkja


Fr. Bradshaw

kross

Faðir Róbert Bradshaw

Faðir Róbert Bradshaw lést 23. september árið 1993 í borginni Krasnoyarsk í Síberíu. Daginn áður en Faðir Bradshaw lést, fann hann fyrir miklum og sárum magaverk. Ákveðið var að skera hann upp. Þá kom í ljós að hann var með krabbamein. Meðan á aðgerðinni stóð fékk hann hjartaáfall og lést. Útför Föður Bradshaw var gerð frá Írlandi og var hann jarðsettur í heimabæ sínum, Tipperary.

Faðir Róbert var vel kunnur mörgu fólki hér á Íslandi. Hann fluttist til Íslands árið 1976 og þjónaði fólki hér til ársins 1992 að hann fluttist til Siberíu. Faðir Robert vann hörðum höndum meðan hann dvaldist á Íslandi og hafði sér til fulltingis félaga úr Maríulegíóninni. Hann hóf reglulegt messuhald í Breiðholti og var í forystu varðandi byggingu Maríukirkju, en hún var blessuð og tekin í notkun þann 25. mars 1985.

Prestsbústaðurinn og safnaðarheimilið voru reist árið 1988. Faðir Róbert var fyrsti sóknarpresturinn í Maríukirkjusókn. Í lok ársins 1987 varð Faðir Róbert sóknarprestur á Akureyri og gegndi því starfi uns hann fór frá Íslandi. Hann stóð fyrir kaupum á húsi á Ísafirði, sem varð miðstöð kaþólska samfélagsins þar.

Þann tíma, sem Faðir Bradshaw dvaldi á Íslandi, hélt hann mörg námskeið og hann var sömuleiðis andlegur leiðbeinandi félaga úr Maríulegíóninni. Hann fór margar ferðir til Írlands og annarra landa til þess að safna fé til byggingar Maríukirkju og annarra verkefna. Faðir Róbert gaf einnig út fjölda bóka og bæklinga á íslensku um kaþólska trú.

Þeir sem þekktu hann muna eftir því að hann vildi alltaf láta kalla sig FÖÐUR Róbert frekar en að nota hið hefðbundna séra Róbert. Hann kaus að láta kalla sig "Faðir"af því að það var það sem hann vildi vera þeim sem hann þjónaði. Hann vildi vera andlegur faðir allra.

Ef við ættum að nefna eitthvert eitt atriði öðrum fremur varðandi Föður Bradshaw, þá er það að hann tók prestsköllun sína mjög alvarlega. Þetta var hægt að sjá á því hversu heitt og einlæglega hann söng eða las messuna og er hann veitti önnur sakramenti. Það sást á því hversu mikla alúð og elju hann lagði í erindi sín og prédikanir. Það sást á því hversu miklum tíma hann varði til bæna, með öðrum og fyrir aðra. Þá sást það einnig af ávöxtum þeim, sem verk hans báru. Hann hafði sérstakan hæfileika til þess að leiða fólk til Jesú fyrir milligöngu Maríu.

Faðir Róbert var prestur af lífi og sál. Í einum af bæklingum sínum um sakramentin sjö skrifaði hann:
“Höfuðskyldur prests eru:

  1. að kenna okkur sannindi trúarinnar sem Jesús Kristur hefur látið okkur í té fyrir postula sína og arftaka þeirra,
  2. að bera fram hina heilögu messufórn,
  3. að fyrirgefa syndir,
  4. að útdeila sakramentunum,
  5. að vera andlegur faðir sóknarbarna sinna.
Í stuttu máli, getum við sagt að presturinn sé fulltrúi Krists hér á jörð. Hans hlutverk er að færa Guð nær manninum og manninn nær Guði.”

Sjálfur stend ég í mikilli þakkarskuld við Föður Róbert, af því að Guð notaði hann og Maríulegíónina til þess að leiða mig til Íslands sem prestur. Þess vegna er ég mjög ánægður og glaður að minnast hans á þennan sérstaka hátt, á tíundu áríð hans. Ég þakka Guði fyrir köllun mína að verða prestur á Íslandi. Sömuleiðis þakka ég Guði fyrir alla þá blessun sem hann hefur veitt svo mörgum hér á landi fyrir tilstilli Föður Róberts. Hann hvíli í friði. Amen.

Séra Denis.